Það er okkur sönn ánægja að kynna ljósmyndaferðina til Myanmar 2020 formlega með útgáfu þessa myndbands.
Ferðin í ár er 12 dagar og 11 nætur. Upphaf ferðar er 2. des 2020 í Yangon og lok ferðar 13. des. á sama stað.

Eingöngu verður boðið upp á litla ferð, 8 ljósmyndara og hópnum fylgja 2 reyndir ljósmyndaleiðsögumenn. Erfiðleikastig ferðar er auðvelt, en ekki er farið í neinar lengri göngur eða fjallgöngur og engar forkröfur eru gerðar um ljósmyndaþekkingu. Ferðin hentar því öllum; byrjendum sem lengra komnum.

Í fyrsta sinn bjóðum við upp á 4 daga framlengingu til að kynnast enn frekar ættbálkum sem dvelja inni í þjóðgörðum fjarri borgum og tæknivæddari heimi.

Ferðaljósmyndaferð með áherslu á ólíka menningarheima og hverfandi ættbálka. Þetta er land sem hefur verið lokað af svo lengi og enginn veit hversu lengi það getur talist ósnert af vestrænni menningu. Í fararbroddi verða 2 reyndir og þekktir ljósmyndarar Óli H fararstjóri En Route Ljósmyndaferða og hinn innlendi og margverðlaunaði Moe.

Myanmar er töfrandi land með ríkar hefðir og aðlaðandi þjóð af meira en 100 þjóðarbrotum. Þúsundir heilagra hofa skreyta leyndardómsþrungið landslag vatnsfalla, skóglendis og ekra. Sannkölluð fjársjóðskista fyrir ástríðufulla ferðaljósmyndara sem dreymir um að sýna forna sögu renna saman við náttúruundur og fegurð landsins.

Hér kynnumst við vel varðveittri menningu og hefðum einnar vinalegustu þjóðar heims. Gestrisnin er engu lík, vinarþelið ósvikið og eftirsókn eftir veraldlegum auð engin. Hvert sem þú ferð ertu einlæglega boðin/n velkomin/n af vinarhönd og áhugaverðum samræðum, með boði um mat og drykk.

Þess ber að geta að við ferðumst á friðsömum svæðum og langt frá átakasvæðum.

Sjáðu myndbandið hér að ofan þar sem Óli fer stuttlega í gegnum helstu atriði ferðarinnar.