frá Kr. 0
Bóka núna

Bólivía, hálendi og saltflatir

Not Rated
Created with Sketch.

Lengd ferðar

13 dagar, 12 nætur

Created with Sketch.

Tegund ferðar

Alferð

Created with Sketch.

Stærð hóps

12 manns

Created with Sketch.

Tungumál

enska, franska, íslenska, spænska

Yfirlit

Næsta Bólivíu ferð: janúar 2021 – dagsetningar væntanlegar

 • Lengd ferðar: 13 dagar / 12 nætur
 • Upphaf ferðar: La Paz, alþjóðaflugvöllurinn El Alto, LPB
 • Lok ferðar: Sucre, alþjóðaflugvöllurinn Alcantarí, SRE
 • Ljósmyndarar og leiðsögumenn: Oli H og Melissa
 • Auk þess fylgir hópnum reyndur innlendur leiðsögumaður og túlkur
 • Fullt fæði
 • Erfiðleikastig: Meðal. Engar lengri göngur/fjallgöngur en ferðast er um háfjallasvæði (allt að 4.000 m hæð)
 • Ljósmyndahæfni/skilyrði: Engar forkröfur
 • Skráning & nánari upplýsingar: enroute@enroute.is

Upplýsingar um verð og skilmála

Verð: ISK 824.000 á mann, miðað við 2gja manna herbergi
Viðbótargjald fyrir sérherbergi ISK 86.000

Staðfestingargjald við bókun ISK 200.000

Innifalið í ferð er EKKI millilandaflug til/frá Bólivíu
Skilmálar En Route Ljósmyndaferða má finna hér.

Landslagsljósmyndaferð til Bólivíu með En Route Ljósmyndaferðum

Næsta ferð  – dagsetningar væntanlegar

Bólivía er fallegt og fjölbreytt land með ótrúlega landfræðilega fjölbreytni og eru ljósmyndatækifærin þar því einstök. Veðurskilyrðin í landinu eru fjölbreytt og á regntímanum er skýjafarið eins og af öðrum heimi. Bólivíska þjóðin er einnig fjölbreytt enda búa þar um 11 milljónir manna og stór hluti þjóðarinnar á ættir sínar að rekja til hinna fornu Inka. Inka hefðirnar eru sterkar í þjóðarsálinni og þjóðarstoltið er mikið. Bólívar eru harðduglegt og heillandi fólk. Virðing þeirra fyrir náttúrunni er mikil og þeir hugsa vel um land sitt þrátt fyrir harðbýli þess og almenna fátækt. Í Bólivíu er mikið lífríki plantna og villtra dýra, margar einstakar dýrategundir hafast við í landinu og að fá að njóta þess að sjá þau villt í eigin nærumhverfi er sérstæð og eftirsóknarverð upplifun.  Bólivía er land andstæða: gríðarstórir fjallgarðar og að því er virðist endalausar sléttur, eyðimerkur, gróðursælar vinjar og kraftmikil háhitasvæði og steikjandi sól og næturfrost strax við sólsetur. Bólivía býður upp á einstaka ferð, upplifun sem skilur okkur eftir með gnótt minninga ævina út.

Teymi leiðsögumanna og ljósmyndara

Leiðsögumenn hópsins eru ljósmyndararnir Óli H., sem er kraftmikill og drífandi atvinnuljósmyndari sem hefur sérhæft sig í ferða- og landslagsljósmyndun auk brúðar- og auglýsingaljósmyndunar. Óli bjó í Bólivíu sem skiptinemi í tæpt ár og heillaðist þá af landi og þjóð.

Melissa er ljósmyndari frá Kanada sem sérhæfir sig í ferðaljósmyndun og hefur mikla reynslu af leiðsögn í ljósmyndaferðum í heimalandi sínu. Melissa er altalandi á spænsku og hefur ferðast víða um heim.  

Óli H., er fararstjóri ferðarinnar. Óli rekur En route ehf. ferðaskrifstofu sem sérhæfir sig í ljósmyndaferðum fyrir reynda sem óreynda ljósmyndara.  Óli er kerfisfræðingur, vefhönnuður og ljósmyndari að mennt. Óli hefur frá unga aldri heillast af ljósmyndun en hann ólst upp á vinnustofum þekktra ljósmyndara í Reykjavík þar sem móðir hans starfaði sem aðstoðarmaður ljósmyndara. Óli lagði þó listina á hilluna til að sækja nám í tölvufræðum. Í hartnær 20 ár starfaði hann á sviði auglýsinga- og markaðssetningar og kenndi samhliða því tölvufræði s.s. kerfisfræði og myndvinnslu. Myndavélin var þó aldrei langt undan og á endanum ákvað hann að söðla um og skráði sig í Tækniskólann til að ljúka námi sem ljósmyndari. Óli tók í kjölfarið nemastöðu hjá Jóni Páli ljósmyndara. Óli er frábær kennari, vel að sér í málefnum líðandi stundar og mikill áhugamaður um tækninýjungar í ljósmyndabransanum. Hann elskar að ferðast, uppgötva nýja staði og fara ótroðnar slóðir. Óli er þekktur fyrir einstakan húmor, létta nærveru og opinskáa tilsögn. Hann er óþreytandi í að leita að nýjum sjónarhornum og nýjum sögum, sögum sem hann endursegir listilega með myndformi sínu. Óli heldur út góðri ferða- og ljósmyndarás á Youtube þar sem hann fer í gegnum ferða-, landslagsljósmyndun og kennir ýmis grundvallaratriði ljósmyndunar, sjá Oli H Photography.

Melissa er fædd og uppalin í Kanada og býr í Calgary. Melissa er alin upp af móður sem er listdansari og var kennt snemma að meta list og fegurðina í verkum. Melissa nam ljósmyndun snemma en lagði þó á hilluna þegar önnur atvinnutækifæri bönkuðu upp á. Hún ferðaðist um heiminn og á þessum ferðalögum fann hún þörf fyrir að skapa og mynda á ný. Í gegnum myndavélina upplifði hún umhverfi sitt upp á nýtt og kolféll fyrir landslagsljósmyndun. Eftir að hafa ferðast um heitari svæði fór hún aftur til Kanada og í fyrsta sinn á ævi sinni kunni hún að meta veturinn, kuldann og einstakt vetrarlandslagið. Ljósmyndun opnaði fyrir henni heim sem hún hafði áður neitað að sjá og í raun forðast. Nú eyðir hún öllum sínum tíma í fjöllunum eða að ferðast um heiminn. Melissa starfar sem atvinnuljósmyndari og er ekki síður þekkt fyrir hæfni sína sem viðburða- og brúðkaupsljósmyndari.

Með þessa tvo samstilltu og frábæru leiðsögumenn munt þú njóta einstakrar upplifunar, bæta þekkingu þína sviði ljósmyndunar og myndvinnslu um leið og þú bætir dýrmætum ljósmyndum í myndasafn þitt.

Innlendir leiðsögumenn og bílstjórar okkar koma frá frábærri ferðaskrifstofu í grennd við La Paz sem sérhæfir sig í ævintýra- og sérhæfðum ferðum um Bólivíu.

Lífsreynsla sem vert er að deila

Landslagsljósmyndaferðin til Bólivíu er áhrifamikil ferð og reynir á þátttakendur líkamlega og andlega. Upplifunin er einstök og hvetjum við ljósmyndara til að njóta upplifunarinnar með maka, vinum, systkinum eða öðrum nákomnum. Ferðin er upplifun fyrir hvern þann sem skráir sig, óháð ljósmyndaþættinum, allir munu upplifa og sjá einstaka og ótrúlega hluti í Bólivíu. Við munum deila óvenjulegri reynslu af ólíku og dramatísku landslagi, land sem líkist heimalandi okkar Íslendinga en samt ekki. Ólík menningar verðmæti og fornar hefðir má enn finna hér, matargerðin er hefðbundin suður-amerísk og einkennist af bragði og afurðum hvers héraðs. Náttúran er í senn tælandi og yfirþyrmandi, náttúruöflin togast á með heitum sólardögum á móti frostkvöldum. Bólivía skilur okkur eftir með upplifun og gnótt minninga ævina út.

Hvers vegna ferðast með En Route Ljósmyndaferðum?

 • Með hópnum eru minnst 3 starfsmenn: 2 frábærir ljósmyndarar auk innlends leiðsögumanns og túlks
 • Framúrskarandi umsagnir og hæstu meðmæli frá fyrri ferðum
 • Einstakur túlkur og leiðsögumaður/bílstjóri fylgir hópnum
 • Afburða þekking á staðháttum, hvenær er best að mynda hvern stað og góð tengingu við heimamenn.
 • Snyrtileg og góð hótel, í nálægð við helstu áfangastaði til að lágmarka keyrslu
 • Mikil og persónuleg aðstoð á tökustað, eins og hentar hverjum, t.d. við stillingar og myndbyggingu
 • Fyrirlestrar og kennsla í eftirvinnslu
 • Þægileg loftkæld farartæki
 • Iceland En Route er viðurkennd ferðaskrifstofa á vegum Ferðamálastofu

Nánari upplýsingar enroute@enroute.is

Sjá meira

HÁPUNKTAR

 • Með hópnum eru 2 frábærir ljósmyndarar og amk 2 heimamenn og reyndir leiðsögumenn. Allir með þekkingu á staðháttum, hvenær er best að mynda hvern stað og með góða tengingu við heimamenn.
 • Snyrtileg og góð hótel, besti valkostur á hverjum stað, í nálægð við helstu áfangastaði til að lágmarka keyrslu
 • Mikil og persónuleg aðstoð á tökustað, eins og hentar hverjum, t.d. við stillingar og myndbyggingu
 • Fyrirlestrar og kennsla í eftirvinnslu
 • Þægileg loftkæld farartæki
 • Sértilboð til þátttakenda á NiSi Filters 100mm Starter Kit
 • Yfirgripsmikil ferð, farið er yfir stórt landssvæði
 • Gisting og önnur þjónusta af hæsta gæðaflokka á hverjum stað

Dagskrá

Dagur 1 - Fyrstu kynni, La Paz, Copacabana

Velkomin/n til La Paz, við tökum á móti þér á flugvellinum og hefjum þar för okkar í Bolívíu ljósmyndaferðina. Þar sem ferðalagið hefur verið langt og strangt tékkum við beint inn á hótel og gefum þér færi á að hvílast stuttlega. Síðdegis höldum við í miðbæ La Paz, grípum nokkur myndatækifæri við sólsetur rétt ofan við borgina. Borgin er 3.500 m fyrir ofan sjávarmál sem gerir hana að hæðst staðsettu höfuðborg í heimi en Bólivía hefur tvær höfuðborgir og hefst ferð okkar í annarri og endar í hinni.

La Paz er í dal við rætur Altiplano fjallgarðanna, hálendis Bólivíu, sem gerir einstakt útsýni yfir borgina og gerir hana jafnframt einstaka yfir að líta frá öllum áttum. La Paz er með iðandi næturlíf og litríka markaði, einstakar verslunargötur tilenkaðar hjátrú og göldrum. Borgin var formlega viðurkennd sem ein af “Nýju Sjö Undraborgum Veraldar” árið 2015.

Við borðum kvöldverð saman, kynnumst betur og förum yfir plön ferðarinnar.

Dagur 2 - Copacabana, Lake Titicaca, Isla Del Sol

Dagur tvö hefst á morgunverð áður en við keyrum yfir til Copacabana, borg rauðu þakanna, nærri landamærum Peru. Þar skoðum við aðaltorgið Plaza 2 de Febrero og hina mögnuðu 16. aldar kaþólsku kirkju, Basilica of Our Lady of Copacabana (Catedral de la Virgen de la Candelaria). Við stoppum í bænum í ca. klst og þátttakendur fá frjálsan tíma til að skoða og mynda borgina og annað hér sem grípur augað. Borgin stendur við hið heilaga vatn Lake Titicaca sem er stærsta vatn í Suður Ameríku og hæsta vatn í heimi. Titicaca tengist sterkt inn í trú ættbálka í Andes fjöllum til dæmis voru sólin, máninn og stjörnurnar talin upprunnin í vatninu.

Við gistum á eyjunni Isla del Sol sem er í um 15 mínútna siglingu frá Copacabana. Isla Del Sol er lítil eyja með fornum Inca slóðum og rústum sem við skoðum meðan á dvölinni stendur. Við byrjum á að ganga að hótelinu og skrá okkur inn og förum strax í sólseturstökur rétt ofan við hótelið. Kvöldinu er eytt í sameiginlegum kvöldverð á hótelinu.

Dagur 3 - Lake Titicaca, Isla Del Sol, Copacabana

Dagurinn hefst mjög snemma með bátsferð í myrkrinu að Pilko Kaina hofinu eða ‘The First Temple’. Við þessar fornu rústir hofsinis sem byggt var af Inkum er fullkomið að mynda sólarupprásina við vatnið. Upplifunin skýrir hvers vegna fólk trúði að sólin væri upprunnin í vatninu.

Við höldum svo tilbaka á hótelið og borðum morgunverð og skráum okkur útaf hótelinu. Við skoðum eyjuna nánar og heimsækjum þorpið Yumani og göngum upp fornar Inka tröppur, Escalera del Inca, til að komast að heilögum læk sem framlengir æskuljóma. Tröppurnar eru 1 km og hækkunin er 200 m, hver má ferðast upp á sínum hraða.

Við siglum til norður hluta eyjunnar að fallegu þorpi sem heitir Challapampa. Þar er afar fögur strönd og iðandi mannlíf. Hér er vert að munda vélina og njóta lífsins, fá sér smá hressingu áður en farið er í skemmtilega gönguferð. Gengin er ævaförn Inka slóð að rústum völundarhússins Chincana þar sem við finnum hinn helga stein, La Roca Sagrada – Titikaka. Við þennan stein er fæðingarstaður sólar og fyrstu Inkanna og hér voru færðar fórnir oftast til sólar. Gönguferðin er tiltölulega stutt en svolítið brött í upphafi, sem getur reynst sumum erfitt. Eftir að hækkuninni er náð liggur slóðin á jafnsléttu og á alveg afskaplega myndvænu svæði, milli húsa og blómríkra garða innfæddra, akra af Amaranth og Quinoa og innfæddar konurnar sjást vinna á ökrunum í litríkum klæðum sínum og svo einstakt útsýni yfir vatnið og nærumhverfi þess. Hver og einn má fara gönguna á sínum hraða og velja að mynda eða eingöngu að njóta og upplifa.

Þeir sem kjósa að fara ekki í gönguferðina fá meiri tíma að njóta í þorpinu Challapampa og sigla svo með bátnum yfir á hinn hluta eyjarinnar til þess að sækja hópinn. Bátsferðin er bæði skemmtileg og falleg.
Hóparnir sameinast við bátalægið við enda gönguleiðarinnar. Báturinn fer með okkur aftur til Copacabana og seinni part dagsins er varið í að keyra tilbaka til La Paz þar sem við gistum aftur. Búast má við að stoppað verði á leiðinni rétt fyrir sólsetur til myndatöku.

Dagur 4 - La Paz – Oruro – Uyuni, Saltflatirnar

Dagurinn er tekinn snemma og við tékkum útaf hótelinu til að halda áleiðis til Oruro sem er staðsett mitt á milli höfuðborganna tveggja La Paz og Sucre, við vatnið Lake Uru Uru. Í þessari námuborg er vert að skoða dómkirkjuna sem bæði hefur afar sérstakar dyr að yfirgefnum námugöngum og lyktar kirkjan því af súlfur. Þar er nú einnig lítið námusafn.

Hér skiljum við við smárúturnar og færum okkur yfir í jeppa til að halda áfram að saltflötunum, Tahua Salt Flats / Salar de Uyuni. Saltflatirnar eru eitt þekktasta kennileiti Bólivíu. Heildarferðatíminn er 8 klst svo við ráðleggjum fólki að taka því rólega yfir daginn og reyna að hvílast vel í bílunum fyrri part dagsins. Kvöldinu og jafnvel hluta nætur verður varið í að mynda stjörnur yfir saltflötunum.

Saltflatirnar eru gríðarstórt landflæmi á þurrum vatnsbotni Lake Minchin og eru þetta stærstu salt sléttur veraldar með billjónir tonna af salti sem brotna upp í náttúruleg sexhyrnd mynstur. Slétturnar mynda sjónblekkingu sem endalaus spegilflötur á regntímanum frá janúar og fram í mars, sem er ástæða þess að við ferðumst á þessum tíma.

Á leið okkar frá Oruro til Colchani, þar sem við förum inn á slétturnar, stoppum við á nokkrum bráðfallegum viðkomustöðum til að mynda sólsetrið í eyðimörkinni. Við ferðumst framhjá fjölda quinoa akra aftur og sjáum vicunas sem er afar sjaldgæf dýr og talin í útrýmingarhættu. Vicunas eru fjarskyld Llama dýrum, finnast eingöngu í fjalllendi Suður Ameríku og ullin af þeim er afar sérstæð og silkikennd. Sérstæð ull þeirra er eftirsótt og hefur eftirsóknin og græðgin tengd ullinni sett þetta fallega dýr í þessa viðkvæmu stöðu, undanfarin ár hefur þó sést fjölgun hjá dýrunum og er fyrst nú að myndast von að tegundinni verði bjargað frá útrýmingu.

Við komuna í Colchani skráum við okkur inn á hótel og fáum við kvöldverð áður en við höldum út til að mynda Vetrarbrautina (Milky Way) yfir heimsins stærsta spegli. Búðu þig undir einstaka næturupplifun.

Dagur 5 - Salt Flats, Isla Pescado

Þrátt fyrir langan ferðadag og næturmyndatökur förum við snemma á fætur til að upplifa draumkennda sólarupprásina á saltþakinni vatnssléttunni. Við leikum okkur í sólaruppprásinni vð myndatökur. Við förum svo og heimsækjum hefðbundið fjölskyldurekið saltvinnslufyrirtæki til að fræðast um mikilvægi sléttunnar fyrir heimafólk og skoðum þekkta saltpíramída sem bíða eftir frekari vinnslu.

Að því loknu förum við að þurra hluta saltsléttunnar, við áum við the Isla Pescado eða Isla Incahuasi sem er í u.þ.b. klukkustundar akstursfjarlægð. Ferðalagið á saltinu er einstaklega skemmtilegt og eyjurnar áhugaverðar. Þessar fyrrum eyjur samanstanda af háum klettum með ótrúlega stórum og virðulegum kaktusum, óvenjulegum kórallöguðum steingervingum og llama dýr út um allt. Hádegisverðurinn verður afar sérstakur þennan dag enda borinn fram á miðri saltsléttunni. Eftir sólsetur fáum við annað tækifæri til að mynda Vetrarbrautina (Milky Way) yfir saltspeglinum.

Vinsamlega athugið dagsplanið þennan dag gæti þurft að aðlaga í samræmi við vatnsmagn á saltflötinni. Bæði gæti eyjan Isla Incahuasi gæti verið óaðgengileg ef vatnið á sléttunni er mikið. Einnig gæti verið að saltpíramídarnir verði myndaðir við sólsetur frekar en um morguninn.

Dagur 6 - Ojo De Perdiz, Salt Flats, Laguna Canapa, Laguna Hedionda, Flamengo, Viscachitas

Við byrjum aftur daginn snemma og færum okkur yfir á Chiguana Salt Flats sem eru í 3.700 m hæð. Nálægt landamærum Chile. Gamlar lestar og lestarteinar á svæðinu gefa okkur skemmtileg og öðruvísi ljósmyndatækifæri. Hér gefst okkur mögulega aftur tækifæri til að sjá hinar einstöku vicunas.

Við hvílumst lítillega og borðum hádegisverð við vatnið Laguna Canapa áður en við höldum áfram að vatninu Laguna Hedionda þar sem við myndum bleiku og hvítu flamingóana og að sjálfsögðu vatnið sjálft.

Síðar keyrum við inn í eyðimörkina á hótelið okkar og hvílumst fram að sólsetri. Á leið að hótelinu stoppum við og myndum annað sérstakt eyðimerkurdýr viscachas, sem svipar helst til villtra kanína en hafa þó lengra og snúið skott.

Við komuna á hótelið mælum við með að þú hvílist um kvöldið og sért meðvituð/aður um einkenni háfjallaveiki, hita eða slappleika/þreytueinkenni og almenna viðkvæmni.
Yfir eyðimörkinni getur skýjafarið orðið sérstætt og fallegt og gefið okkar afar fallegar myndir í ljósaskiptum og sólsetri. Við þurfum eingöngu að fara í bakgarð hótelsins til að mynda og er hópnum frjálst að velja myndatökur eða hvíldarstund.

Dagur 7 - Ojo De Perdis, Arbol De Pierdra, Laguna Colorada, Flamengo, Lama

Undirbúðu þig fyrir ótrúlegan og draumkenndan dag. Að loknum morgunverð höldum við að einstakri steinaborg og steinstöplum í miðri eyðimörkinni. Þekktast af þeim er án efa Arbol de Piedra eða the Stone Tree sem er risastór 7m steinn, vind- og sandblásinn yfir þúsundir ára og minnir helst á steingerðan trjábol.

Við stoppum til hádegisverðar við augnakonfektið sem kallast Rauða Vatnið, Laguna Colorada (the Red Lagoon). Rauður liturinn á þessu grunna vatni er tilkominn vegna rauðra þörunga og botnfalls og myndar vatnið skemmtilega andstæðu við hvítar borax eyjarnar allt í kring. Borax er hvítt kristallað steinefni sem er notað víða um heim í t.d. snyrtivörur, gullgröft og trefjaplasts framleiðslu svo eitthvað sé nefnt. Á vatninu væntum við þess að sjá hundruðir flamingo fugla og á ströndinni llama dýr á beit. Myndatækifærin eru því út um allt og hér verjum við góðum tíma, myndum og njótum í rólegheitum.

Um kvöldið skráum við okkur inn á nýtt hótel, förum svo aftur út til að mynda sólsetrið við Laguna Colorada.

Dagur 8 - Ojo De Perdiz, Laguna Verde, Quetena Chico, Dali Desert

Fótaferð er um miðja nótt og keyrum við í 1 klst upp á háhitasvæðið Sol De Manana Geysers, sem er í 5.000 m hæð. Hér er við hæfi að mynda sólarupprásina enda heitir svæðið “háhitasvæði morgun sólarinnar”. Þetta er hæsti punktur ferðarinnar og myndum við hér þar til allir eru saddir og förum þá aftur niður.

Á leið okkar til baka, ca í 3.800 m hæð stoppum við í eyðimörkinni, the Dali Desert, sem þekktust er fyrir að minna á málverk Salvador´s Dali. Við áum einnig við heitu laugarnar the Polques Thermal Springs þar sem aðgangur er að salernum og hægt að versla mat og drykki í kaffiteríunni. Þeir sem vilja nota stutt stoppið til að baða sig þurfa að hafa með sér baðföt/handklæði.

Hæðin getur haft áhrif á líðan í dag og minnum við á að hægar hreyfingar, vatnsinntaka, forðast sól velja frekar skugga, notast við hatt og sólgleraugu, borða léttar máltíðir, jafnvel að tyggja kókalauf og drekka kókate geta hjálpað mikið.

Næsta stopp er salta vatnið græna, Laguna Verde eða the Green Lagoon, sem situr myndarlega undir keilulöguðu eldfjalli, umvafið svörtu klettalandslagi. Liturinn á vatninu er breytilegur frá sægrænu (túrkís) að dökkgrænu eftir vindstyrknum hverju sinni sem hrærir upp í vatnsyfirborðinu. Liturinn er hinsvegar upprunninn í steinefnum í vatninu, m.a. arsenik. Þrátt fyrir að hér geti gert ískaldan vind og hitastig vatnsins fari stundum undir frostmark, leggur vatnið ekki.

Í lok þessa langa dags kveðjum við þennan einstaka þjóðgarð og höldum á nýtt hótel í Quetena Chico til að hvílast.

Dagur 9 - Quetena Chico, San Pablo De Lipez, Castillo Quemado

Á níunda degi ljósmyndaævintýrisins í Bólivíu tökum við sólarupprás líkt og aðra daga, höldum svo tilbaka á hótelið í morgunverð og skráum okkur svo út. Við stoppum í yfirgefnum draugabæ sem Spánverjar byggðu á nýlendutíma sínum hér. Hér sjáum við fallega byggð steinhlaðinna húsa, kirkjur og borgarhlið innan um dramatískt landslag. Þorpið er ótrúlega vel varðveitt og gefum við okkur tíma til að ganga um svæðið og mnda og njóta.

Hádegisverð fáum við eftir að hafa skráð okkur inn á hótel í litla bænum San Pablo de Lipez. Frjáls tími til að hvílast eða skoða bæinn.

Síðla dags er val um áframhaldandi frjálsan tíma eða sólseturs myndatöku við magnaða klettaveggina Castillo Quemado. Sameiginlegur kvöldverður er á hótelinu og svo er kvöldið tekið snemma.

Dagur 10 - San Pablo De Lipez, Palacio Quemado, Tupiza

Í dag njótum við sólarupprásar við hina mögnuðu klettaborg Palacio Quemado og síðan er morguninn tekinn í rólegheit í bænum.

Að loknum hádegisverð keyrum við í ca. 4 klst, skoðum ævintýralegar klettaborgir El Sillar og endum í afslöppuðu þorpi sem nefnist Tupiza. Við borðum kvöldverð hér og förum í nálægan dal til að mynda sólsetrið og hvílumst svo.

Dagur 11 - Tupiza, Cayara, Rock Valley

Eftir staðgóðan morgunverð á hótelinu förum við í eina af hæstu borgum veraldar, Potosi, sem áður var ríkasta borg Suður-Ameríku enda var gnótt af silfri í námunum í kring. Potosi situr undir fjallinu Ríka hæðin eða Mt Cerro Rico og námurnar eru enn ríkar af steinum og málmum þó fátítt sé orðið að finna hér silfur.

Við skráum okkur inn á nýtt hótel nú í Cayara, þar sem eyðimörkin hopar fyrir grænum lendum bændanna. Við keyrum í hinn fræga dal, Valle de las Rocas eða the Rock Valley þar sem við væntum þess að sjá fjallaklifrara leika sér í hömrunum og við munum vonandi fá að mynda þá við ævintýri sín. Hér eyðum við deginum fram yfir sólsetur og þá höldum við tilbaka í kvöldverð og svo hvíld.

Dagur 12 - Cayara, Sucre

Næst síðasti dagurinn hefst með sólarupprás við Cayara og morgunverð. Síðan höldum við í 2-3 klst bílferð til Sucre, 300.000 manna höfuðborgar Bólivíu. Sucre var gerð að UNESCO World Heritage Site árið 1991 og er oft kölluð Hvíta borgin eða the White City vegna hvítmálaðra bygginga og listaverka frá nýlendutímum. Borgin stendur í um 2.800m hæð frá sjávarmáli og því er loftið þynnra hér. Borgin er afar sérstæð og gaman að koma til. Við skoðum borgina yfir daginn og frá einstökum útsýnisstað munum við mynda sólsetrið sem kastar töfrum sýnum yfir alla borgina.

Síðustu kvöldmáltíðinni verjum við saman og kveðjumst formlega eftir frábæra ferð og náið samstarf. Síðustu nóttinni verjum við á hóteli í Sucre.

Dagur 13 - Sucre, brottfarardagur

Hver og einn skipuleggur brottför heim frá Sucre. Bílstjóri á okkar vegum keyrir þátttakendur á flugvöll.

Included/Excluded

 • 2-3 ljósmyndaleiðsögumenn, atvinnu ljósmyndarar
 • Öll gisting, í tveggja manna herbergi
 • Allur matur: morgunverður, hádegisverður, kvöldverður
 • Ferðamáti innanlands:
 • Loftkæld rúta milli áfangastaða
 • Allar bátsferðir, sbr. einka bátar til Isla de la Sol
 • Fjórhjóladrifnir jeppar (Toyota Land Cruiser eða svipað)
 • Íslensku-, ensku-, frönsku- og spænskumælandi leiðsögn allan tímann
 • Aðgangur í þjóðgarða og vernduð svæði, að söfnum undanteknum
 • Flugvallarakstur, komu- og brottfarardag
 • Skattar
 • Alþjóðlegt flug til/frá Bólivíu (aðstoð veitt við bókun/val á flugi)
 • Aðrar máltíðir eða áfengir drykkir, snarl
 • Lækniskostnaður eða kostnaður vegna bólusetninga
 • Þjórfé fyrir hótelstarfsfólk, bílstjóra eða leiðsögumenn
 • Vegabréfsáritun í Bólivíu (Íslendingar þurfa ekki áritun)
 • Annað sem ekki er nefnt hér að ofan sem innifalið
 • Ferðatryggingar og önnur þjónusta sem ekki er sérstaklega nefnd hér

Tour's Location

Created with Sketch.
frá Kr. 0

Þú gætir einnig haft áhuga á

Vertu áskrifandi

áhugavert efni og tilboð

Póstlisti

*Við munum aldrei senda þér spam