5 uppáhalds íslensku fossarnir okkar

Mig langar að segja ykkur hverjir eru 5 uppáhalds íslensku fossarnir okkar. Fossar eru ein mesta prýði og sérstaða Íslands og þar með eitt af uppáhalds ljósmyndaviðfangsefni margra. Vissir þú til dæmis að Ísland er stundum nefnt land fossanna? Það er skrýtin tilhugsun fyrir okkur sem ölumst upp með þessar gersemar í bakgarðinum okkar að fólki skuli finnast fossarnir svona merkilegir. En oftar en einu sinni hef ég staðið með erlendum gesti við fossa landsins og þeir hafa tárast, sumum hefur bara vöknað um augun meðan aðrir hafa hreinlega fellt tár og komist við. Þetta fólk hefur oft á tíðum verið að sjá foss í fyrsta sinn á ævinni.

En hvers vegna eru fossarnir svona margir á eyjunni okkar? Stutta svarið er vegna þess að eyjan býr yfir svokölluðu Norður Atlantshafs landslagi, sem eins og við þekkjum framkallar miklar úrkomur ýmist rigningu eða snjó. Við höfum jökla sem þekja 10% landsins sem einnig framkalla mikla losun vatns yfir sumartímann og þetta vatn leiða ár landsins til sjávar. Síðan er hæð landsins yfir sjávarmáli töluverð svo þessar ár verða að ferðast niður brattar hlíðar til að komast til sjávar, þess vegna höfum við svona marga fossa.

Margir af mínum uppáhaldsstöðum til að mynda hér heima eru einmitt fossarnir – ég er ekkert öðruvísi en ferðamennirnir því vatnið heillar mig. Ég hef myndað þá þó nokkra þó ég gerist nú ekki svo djarfur að þykjast hafa myndað þá alla. Mér skilst meira að segja að það séu ekki til neinar tölur yfir fjölda fossa á landinu, við hreinlega vitum ekki hvað við eigum marga og það er svoltíðið merkilegt. Mikið af fossunum okkar falla nálægt þjóðveginum umhverfis landið, þar er landið jú oft lægst, og það er ferðamesta svæði landsins og margir þekktustu fossarnir eru því mjög aðgengilegir.

Fossarnir okkar eru frábært viðfangsefni allt árið um kring, þeir eru mjög fjölbreytilegir og taka skemmtilegum árstíðabundnum breytingum. Uppáhaldstími minn til að mynda fossa er á veturna, þegar þeir eru að hluta eða alveg bundnir klakaböndum. Yfir vetrartímann frjós sumir fossar nær alveg meðan aðrir frjósa aðeins á yfirborðinu svo hreyfingar vatnsins verða áberandi undir ísskelinni.

Þetta eru 5 uppáhalds íslensku fossarnir okkar:

Dettifoss

Dettifoss
Dettifoss

 

 

 

Fyrstan verð ég nefna sjálfan konunginn Dettifoss. Það er alveg ótrúlegt að ferðamenn skuli almennt ekki gera sér ferð meira norður en raun ber vitni. Að mínu mati ætti ferð norður til að sjá Dettifoss að vera skilyrði fyrir komunni til landsins. Dettifoss er innan Vatnajökuls Þjóðgarðar á norð-austurlandi og hann er kallaður kóngurinn því hann er annar kröftugasti eða vatnsfallsmesti foss í gjörvallri Evrópu. Hundruðir kúbikmetra af vatni falla niður brúnir hans.

Til að vera nákvæmari þá er Dettifoss hluti af Jökulsá á Fjöllum. Áin rennur undan Vatnajökli til norðurs en hún safnar einnig vatni úr mörgum öðrum ám á norð-austurlandi. Vatnið er mjög sérstakt á litinn leirljóst eða ljósgráleitt vegna þess hve ríkt það er af botnfalli og seti.
Dettifoss er 100 metra breiður og fall hans er 44 metrar niður í Jökulsárgljúfur. Hann er stærsti foss landsins miðað rúmmál en meðaltals vatnsmagn hans er 193 m³/s.

En hvernig vita vísindamenn að hann er stærsti foss landsins og næststærsti í Evrópu? Ég reyndar trúði framan af að hann væri stærstur og mestur en það er víst annar vatnsmeiri í Noregi. Samkvæmt vatnsaflsfræðum er margfaldað: vatns magn x fallhæð (193 m³/s x 44 metrar).
En hvað er svona sérstakt við Dettifoss ljósmyndalega séð? Það er orkan sem hann gefur frá sér, höggbylgjurnar sem skella á þær þegar vatnið hendist niður gilið, breið syllan sem vatnið hendist yfr og meira að segja litir vatnsins segja þér að vatnið hefur grafið ýmislegt upp á leið sinni að þessari brún. Ekkert stenst fossinum og krafti hans snúning og hann skilur þig eftir með hugsunina um smæð og magnleysi mannsins. Þessir gegndarlausu kraftar sjást vel á mynd og endurspegla tilfinninguna fulkomlega.

Frægð Dettifosss hefur farið víða og m.a. hefur Hollywood kosið að nota hann sem sviðsmynd í öflugum kvikmyndum eins og í vísindatrylli Ridley Scott’s Prometheus. Einnig sést fossinn í Thor: The Dark World ofurhetjumyndinni um goðið Þór frá hinna frægu The Marvel Studios.
Færri vita að nálgast má fossinn frá báðum hliðum, vestur hliðinni og austur hliðinni. Flestir koma að Dettifossi frá vestri á vegi 862, þar er gott aðgengi allan ársins hring, salernisaðstaða, gönguleið og útsýnispallur.

Austur hliðin er hins vegar malarvegur (vegur 864) og eingöngu opinn á sumrin. Á austurbakkanum er einfaldari aðstaða með upplýsingaskilti, klósettaðstaða og einfaldur slóði að fossbrúninni.

Ég heimsæki alltaf báðar hliðar, hvort sem ég kem að sumri eða vetri. Á veturna leigi ég breyttan jeppa og bílstjóra frá Akureyri og það reynist alltaf skemmtilegt vetrarævintýri.

Goðafoss

Goðafoss
Goðafoss

Næstur er nágranni Dettifosss, Goðafoss. Einnig á norðausturlandi.
Auðfundinn við þjóðveginn við gatnamótin inn á hálendisleiðina Sprengisand. Skjálfandafljót fellur þar fram af 30 metra breiðri syllunni og niður um 12 metra.

Eins fallegt og nafnið er fossinn sjálfur. Ég taldi alltaf að sagan á bakvið nafnið væri skýr, gott ef mér var ekki kennd hún í grunnskóla. Að þarna hafi Þorgeir Ljósvetningagoði hafnað norrænum goðum og tekið upp kristna trú í framhaldin, eftir að hafa hent syttum af goðunum í fossinn. Ljóðræn og magnþrungin saga sem ég segi enn ferðamönnum mínum, en bæti þó við að sagnfræðingar finni sögunni engan hljómgrunn í fornum fræðum. Talið er að sagan sé flökkusaga sem fyrst kom upp á yfirborðið fyrir nokkur hundruð árum.

Fossinn sjálfur er sem áður sagði afar fallegur. Hann skiptist í tvo megin fossa en fallegur bergstólpi stendur upp úr honum miðjum. Eftir vatnsmagni geta fossarnir verið fleiri og hann er ótrúlega fjölbreyttur eftir árstíðum og veðurfari. Hann er mikið smærri en nágranni hans Dettifoss og heimamenn sögðu mér eitt sinn að í daglegu tali væru þeir stundum kallaðir „the Beauty and the Beast“ sem mér fannst alveg réttnefni.

Goðafoss er eins og áður sagði mjög fjölbreyttur og hér get ég auðveldlega myndað nánast hvenær dags sem er og bæði við sólarupprás og sólarlag. Einn af þeim stöðum sem klikka bara ekki.

Aldeyjarfoss

Aldeyjarfoss
Aldeyjarfoss

Þriðji fossinn í frásögn minni er líka nágranni fyrrnefndra fossa, drottning norðursins, Aldeyjarfoss. Aðeins utan alfararleiðar eða hefðbundinnar leiðar ferðamanna. Margir Íslendingar hafa jafnvel spurt mig sérstaklega um fossinn því þeir þekkja ekki til hans. Ég leyfi mér því að fullyrða að Aldeyjarfoss er einn af fáum leyndarmálum sem Íslendingar eiga eftir.

Fossinn er inn á hálendisleið okkar Sprengisandi, sem er skilgreint sem svæðið á milli jöklanna Hofsjökuls og Vatnajökuls. Forn leið sem gengdi því mikilvæga hlutverki að tengja norður og suðurland saman. Leiðin sem menn fóru til forna til að komast á Þingvöll. Upphaflega hét leiðin Sandr eða Sandleið, en í dag þekkjum við hana bara sem Sprengisandur. Sagan á bakvið nafnið er tælandi en þar sem berangurslegt landið gaf ekkert fóður fyrir hrossin og ekkert skjól fyrir menninia þurftu menn að ríða hratt og örugglega yfir svæðið og segir sagan að nokkrir hafi riðið of geyst og sprengt hrossin sín á leiðinni.

Athugið að Sprengisandur er lokaður á veturna vegna snjólags og á vorin vegna flóða. Hér þarf að fara um á breyttum jeppum og með vanan bílstjóra ef ætlunin er að mynda Aldeyjarfoss að vetri.

Aldeyjarfoss er í Skjálfandafljóti líkt og Goðafoss. Fljótið fellur hér niður um 20 metra. Kolsvart stuðlabergið sem umlykur fossinn rammar hann fallega inn. Andstæðurnar í svörtu berginu og hvítfyssandi vatninu eru afar fallegt myndefni.

Brúárfoss

Brúárfoss
Brúárfoss

Fjórði á listanum er Brúárfoss. Þrátt fyrir að vera á hinum rómaða Gullna hring þá var hann líkt og Aldeyjarfoss falin gersemi lengi vel. Ég minntist þess aldrei að hafa farið þangað sem barn eða í seinni tíma. Ekki fyrr en landslags ljósmyndaáhugi minn jókst á fullorðinsárum fór ég að venja komur mínar þangað. Við, örfáir ljósmyndarar, vorum þeir einu sem lögðum leið okkar að honum. Fossinn er líkt og nafnið gefur tilkynna á Brúará og eingöngu um 2 km norður af Laugarvatnsvegi.

Með tilkomu aukins ferðamannastraums í kjölfar Eyjafjallajökulsgossins og stóraukinnar notkunar á netmiðlum, ferðabloggum, Google maps kortakerfisins og samfélagsmiðla eins og Instagram varð Brúarárfoss heimsfrægur ef svo má segja yfir nótt. Nálægð hans við helst heimsóttu ferðamannastaði landsins gerðu það að verkum að pínulítill foss í miðri sumarhúsabyggð var heimsóttur af þúsundum manns daglega. Ekki það að samfélagsmiðlar séu slæmir en stundum hafa þeir gert fallega staði nær óþekkjanlega vegna mannflaums sem vilja heimsækja þá.

Fossinn er fallegur allt árið um kring, lítill og hljóðlátur og svolítið krúttlegur. Mjög fjölbreyttur eftir ljósi og tíma dags og verður æðislega blár á hinum svokallaða „blue hour“ sem eru ljósaskilyrði sem myndast eftir sólsetur. Núna er komið gott bílastæði og skemmtileg gönguleið að fossinum meðfram ánni upp að fossinum. Gangan tekur um 20-30 mín.

Kvernufoss

Kvernufoss
Kvernufoss

Síðasti fossinn sem ég ætla að fjalla um í dag er mjög sérstakur og skemmtilegur. Sérstakur kannski af því hann er síst þekktur af þessum 5 fossum. Hann er á suðurströndinni nafntoguðu, þar sem umferð ferðamanna er einna mest á landinu. Fosinn er alveg við þjóðveginn en samt fer hann framhjá flestum sem fara þar framhjá. Kvernufoss er rétt austan við Skógafoss, þú átt að geta séð hann frá þjóðveginum á leið þinni austur að minnsta kosti ef þú veist hvar þú átt að horfa, fæstir sjá hann. Til að vera alveg heiðarlegur þá er hann hálf falinn inni í gili og þú þarft að vera við ána og horfa upp í gilið til að sjá fossinn. Samt sem áður á þessi falda gersemi vel heima með stóru strákunum.

Gangan að Kvernufossi er auðveld og tekur eingöngu um 20 minútur, lagt er við minjasafnið við Skóga. Gönguleiðin er meðfram ánni og best er að hafa varann á því steinarnir sem þarf að fara yir geta verið lausir í sér, á einum stað þarf að fara yfir girðingar stiga. Líkt og við nágranna hans Seljalandsfoss er lítill hellisskúti á bakvið fossinn og hægt er ganga á bakvið Kvernufoss, að minnsta kosti á sumrin. Farið varlega og reynið það ekki á veturna nema með réttum öryggsbúnaði líkt og mannbroddum. Við mælum með regnjakka.

Kvernufoss er í Kvernuhólsá sem er oft kölluð Kverna. Fossinn fellur 30 metra niður fallegt gilið sem kallast einfaldlega Kvernugil. Passið ykkur þó að það er annar foss til á Snæfellsnesi sem heitir Kvernárfoss í ánni Kverná. Kannski ólíklegt að Íslendingar ruglist og fari á Snæafellsnes í stað Suðurstrandar en þó veit maður aldrei hvort tæknin (GPS) getur platað fólk. Líkindin í nöfnunum er amk mikil.

Kvernufoss er ekki falinn og margir Íslendingar vita þegar af honum en mér þykir sjaldgæft að heyra að fólk hafi gefið sér tíma til að stopppa við og skoða hann. Um hann er fjallað í mörgum erlendum ferðabloggum og samfélagsmiðlum, samt er hann lítið heimsóttur. Ég tel að það sé vegna þess að hann er hálffallinn og nógu langt frá þjóðveginum til að fólk gefi sér tímann. Nú er ég alls ekki að segja að fólk eigi að flykkjast þangað í bílförmum, en ef þig langar í rólega stund og yfirvegaða fjarri ferðamanna ys en samt njóta íslenskrar náttúru eins og hún gerist best þá er Kvernufoss þinn staður. Við Kvernufoss geturðu gefið þér allan tímann í heiminum til að njóta.

 

Auðvitað væri auðvelt fyrir mig að gera mikið lengri lista yfir fallega fossa. En ætlunin var ekki að fjalla um alla fallega fossa landsins, sem telja tugum ef ekki hundruðum. Ætlunin var eingöngu að fjalla um 5 uppáhalds íslensku fossana okkar. Fossarnir eru einstakir og við megum ekki gleyma því.

Vinsamlega hafið í huga þegar þið myndið þessa fossa eða hvaða fossa sem er að umverfi þeirra er viðkvæmt og þarfnast virðingu þeirra sem fara þar um. Heimafólk á skilið sömu virðingu það er oft á tíðum þeim að þakka að við getum skoðað þessar gersemar, saga þeirra er geymd með heimafólki og stundum þarf að fara um einkaland til að njóta þeirra. Þakklæti og kurteisi kostar ekkert. Ofar öllu hafið eigið öryggi alltaf í huga sérstaklega á veturna. Fossarnir hafa oft viðsjárvert umhverfi, í kringum fossa verður mjög sleipt og hættulegt yfirferðar. Öryggisbúnaður er mikilvægur og ber þar helst að nefna mannbrodda jafnvel stafi. Til að heimsækja norðurlands risana þarftu breyttan jeppa og vanann bílstjóra. Við notumst við frábært heimafólk sem þekkir svæðið eins og handarbakið á sér og er fagfólk fram í fingurgóma.

Mundu að Ísland er ungt og viðkvæmt land

Markmið okkar allra ætti að vera að vernda landið okkar og þar með virði þess. Náttúran okkar er ung og þar sem við búum á eldfjalli er allur gróður mjög viðkvæmur. Við ferðumst um landið með erlenda og innlenda ljósmyndara og ferðlanga og sýnum þeim þekkta staði og stundum faldar eða minna þekktar gersemar. Áhersla okkar er mikill á ást, varkárni og virðingu fyrir þessum stöðum. Við viljum ólm sýna og monta okkur af náttúru landsins og að fólk njóti alls þess besta sem landið hefur upp á að bjóða. Við biðjum líka alla að viðhafa þá gömlu og góðu reglu að það rusl sem við komum með okkur út í náttúruna fer með okkur til baka, endurvinnsla og endurnýting er mikilvæg annrs verða þessar náttúruauðlindir okkar ekki lengur eftirsóknarverðar. Ekkert okkar er komið hingað til að mynda annars rusl eða óþrifnað.

Að lokum er það ljóst að af 3 af 5 uppáhalds íslensku fossunum okkar eru á norðausturlandi. Svo ef þú ert að velta fyrir þér hvert þú átt að fara í sumar, þá mælum við með að þú leggir norðurlandið undir þig, fossarnir eru þar.

Ljósmyndaferðir færa þér einstaka lífsreynslu.

Átt þú erlendan vin sem hefur áhuga á Íslandi? Ekkert mál, þessi grein hefur einnig verið birt á ensku á vefsíðu okkar www.enroute.is og þú mátt alveg deila henni.

Þetta myndband gerðum við í vetur þegar við heimsóttum þessar norðlensku gersemar. Myndbandið er á ensku eins og flest efni sem við gefum út á myndbandsformi til að þjóna sem flestum.