Fótaferð er um miðja nótt og keyrum við í 1 klst upp á háhitasvæðið Sol De Manana Geysers, sem er í 5.000 m hæð. Hér er við hæfi að mynda sólarupprásina enda heitir svæðið “háhitasvæði morgun sólarinnar”. Þetta er hæsti punktur ferðarinnar og myndum við hér þar til allir eru saddir og förum þá aftur niður.
Á leið okkar til baka, ca í 3.800 m hæð stoppum við í eyðimörkinni, the Dali Desert, sem þekktust er fyrir að minna á málverk Salvador´s Dali. Við áum einnig við heitu laugarnar the Polques Thermal Springs þar sem aðgangur er að salernum og hægt að versla mat og drykki í kaffiteríunni. Þeir sem vilja nota stutt stoppið til að baða sig þurfa að hafa með sér baðföt/handklæði.
Hæðin getur haft áhrif á líðan í dag og minnum við á að hægar hreyfingar, vatnsinntaka, forðast sól velja frekar skugga, notast við hatt og sólgleraugu, borða léttar máltíðir, jafnvel að tyggja kókalauf og drekka kókate geta hjálpað mikið.
Næsta stopp er salta vatnið græna, Laguna Verde eða the Green Lagoon, sem situr myndarlega undir keilulöguðu eldfjalli, umvafið svörtu klettalandslagi. Liturinn á vatninu er breytilegur frá sægrænu (túrkís) að dökkgrænu eftir vindstyrknum hverju sinni sem hrærir upp í vatnsyfirborðinu. Liturinn er hinsvegar upprunninn í steinefnum í vatninu, m.a. arsenik. Þrátt fyrir að hér geti gert ískaldan vind og hitastig vatnsins fari stundum undir frostmark, leggur vatnið ekki.
Í lok þessa langa dags kveðjum við þennan einstaka þjóðgarð og höldum á nýtt hótel í Quetena Chico til að hvílast.